Bílar

Opel Astra - Bíll ársins í Evrópu mættur

Finnur Thorlacius skrifar
Opel Astra.
Opel Astra.
Opel Astra hlaut hin eftirsóttu verðlaun bíll ársins í Evrópu. Hann kom af nýrri kynslóð síðasta haust, þeirri áttundu reyndar. Það eru engar ýkjur að segja að Opel hafi vart undan að taka við verðlaunum og viðurkenningum, sem honum hefur hlotnast frá því hann leit dagsljósið.

Nú er þessi nýjasti bíll Opel kominn til landsins og hann verður frumsýndur í þessum mánuði hjá Bílabúð Benna. Greinarritari hefur notið þeirra forréttinda að prófa þennan bíl bæði erlendis sem hérlendis og það í ýmsum útgáfum. Í þeim prófunum hefur sannast að þessi bíll er frábært útspil í flokki bíla þar sem samkeppnin er sannarlega hörð.

Ekki lengur “næstumþví”

Sagt hefur verið hingað til að Astra sé “næstumþví”-bíllinn og þá meint að hann sé með næstum jafn góða akstureiginleika og Ford Focus, næstum því eins vel smíðaður og Volkswagen Golf, næstum jafn vel smíðaður og Toyota Corolla og næstum því eins rúmgóður og Skoda Octavia. 

Flestir bílablaðamenn eru þó á því að hér sé kominn bíll sem jafnvel slær hinum við að öllu leiti nema rými Octavia. Það er ekki slæmur dómur og eitthvað hefur það verið sem heillaði alla þessa mörgu dómnefndarmenn frá evrópskum bílablaðatímaritum og blöðum. Víst er að Opel hefur lagt allt í sölurnar með hönnun og smíði þessa bíls sem fellur í söluhæsta flokk bíla heims.  

Fór í væna megrun og er troðinn tækni

Það finnst glögglega í akstri nýja Astra bílsins að hann hefur lést mikið og gaman að bera saman nýju og næstsíðustu kynslóð bílsins. Hann er orðinn mun betri akstursbíll og ferlega gaman að henda honum fyrir hornin og hann ræður miklu betur við það en áður. Nýi bíllinn er svo troðinn af nýrri tækni og fítusum að slíkt á eiginlega heima í miklu dýrari bílum. 



Opel hefur verðlagt þennan bíl afar hóflega og er það greinilega gert til að skáka samkeppninni og það virðist að einhverju leiti hafa tekist á meginlandi Evrópu, en gríðarlegar pantanir hafa verið í bílinn allt frá því hann var kynntur og Opel hefur vart undan. Opel Astra verður í boði frá 3.190.000 kr. og mengar aðeins frá 99 g/km. Hann mun fást með miklu úrvali bensín- og dísilvéla og vali á milli misíburðarmikilla innréttinga. 






×