Bílar

Þrjár milljónir Subaru í Indiana

Finnur Thorlacius skrifar
Bíll nr. 3.000.000 í Indiana var Subaru Outback.
Bíll nr. 3.000.000 í Indiana var Subaru Outback.
Subaru í Bandaríkjunum fagnaði þeim áfanga í lok júlí að þrjár milljónir Subaru bíla hafa verið framleiddar í verksmiðju fyrirtækisins í Indiana sem tók til starfa í september árið 1989. Þriðja milljónasta eintakið sem kom af færibandinu þann 28. júlí var af gerðinni Subaru Outback.

Eftirspurn eftir Subaru hefur aukist á liðnum árum í Bandaríkjunum sem mætt hefur verið með aukinni framleiðslu í verksmiðjunni í Indiana. Þar var sett framleiðslumet á síðasta ári þegar 18,5% fleiri bílar komu af færiböndunum en árið á undan, eða alls 228.804 bílar.

Subaru hefur ákveðið að auka framleiðslugetuna í 394 þúsund bíla á ári og verður lokið við nauðsynlegar breytingar á framleiðslulínunni í lok ársins. Frekari breytingar eru þó fyrirhugaðar því stefnt er að því að auka framleiðslugetuna enn frekar á næstu misserum og frá og með fyrri hluta árs 2019 er stefnt að því að verksmiðjan geti afkastað framleiðslu á 436 þúsund bílum á ári.

Síðar á þessu ári hefst framleiðsla á nýjum Impreza í Indiana og árið 2018 hefst þar einnig framleiðsla á nýjum jepplingi með þremur sætisröðum sem tekur við af núverandi Tribeca jeppa.






×