Sport

NBA í nótt

Nokkrir leikir voru á dagskrá í NBA deildinni í körfuknattleik í nótt.  Helst bar þar til tíðinda að Miami Heat vann sinn níunda leik í röð þegar liðið valtaði yfir Millwaukee Bucks 110-71 með Dwayne Wade sem sinn besta mann, en hann skoraði 29 stig fyrir Heat sem var að vinna sinn þrettánda heimaleik í röð og vantar aðeins einn sigur í röð til að jafna félagsmet sitt.  Miami er nú komið fast á hæla Phoenix Suns og San Antonio Spurs, sem eru með bestan árangur allra liða í deildinni. San Antonio átti ekki í vandræðum með New Orleans Hornets í nótt og sigruðu örugglega 112-89 og hafa líklega kæst meira yfir endurkomu Tim Duncan úr meiðslum, en yfir sigrinum sjálfum, sem var aldrei í hættu.  Það var varaleikstjórnandi Spurs, Beno Udrih sem var stigahæstur þeirra með 25 stig í fjarveru Tony Parker sem á við smávægileg meiðsli að stríða.  Tim Duncan átti stórleik í sínum fyrsta leik í nokkra daga og skoraði 18 stig og hirti 13 fráköst á aðeins 26 mínútum í leiknum. Washington Wizards sigruðu Los Angeles Lakers örugglega 95-81 og unnu báða leiki sína við fyrrum meistarana á tímabilinu og það var í fyrsta skipti í sögu félagsins sem þeir ná þeim árangri.  Larry Hughes og Gilbert Arenas voru atkvæðamestir í liði Washington og skoruðu báðir 21 stig, þótt sá síðarnefndi ætti við hnémeiðsli að stríða.  Antawn Jamison lék aðeins nokkrar mínútur í leiknum og þurfti að fara af velli meiddur á hné.  Kobe Bryant átti ekki góðan dag og hitti aðeins úr 6 af 22 skotum sínum utan af velli. Houston Rockets eru á góðu skriði þessa dagana og kláruðu fjögurra leikja ferðalag taplausir eftir að þeir lögðu Golden State Warriors í nótt á bak við 20 stig frá Tracy McGrady og liðið stefnir hraðbyri að góðu sæti í úrslitakeppninni í vor.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×