Sport

Heat - Lakers á Sýn í kvöld

Miami Heat tekur á móti Los Angeles Lakers í NBA-körfuboltanum í kvöld. Þar munu Shaquille O´Neal og Kobe Bryant, fyrrum samherjar hjá Lakers, leiða saman hesta sína. Liðin mættust í Los Angeles í desember á síðasta ári þar sem Lakers þurfti að lúta í lægra haldi fyrir Heat. Miami-liðið var þá á mikilli sigurgöngu sem endaði með fjórtán leikjum í röð án taps. Liðið hefur nú unnið tíu leiki í röð og mikil spenna ríkir fyrir einvígi liðanna í kvöld. Kobe Bryant sagðist ekki hafa miklar áhyggjur af viðureign kvöldsins. "Ég hef ekki á tilfinningunni að mínir menn séu eitthvað spenntari en venjulega. Þetta er bara eins og hver annar leikur fyrir okkur," sagði Bryant.   O´Neal tók í sama streng og kom með frumlegar útskýringar sem og endranær. "Þið megið ekki gleyma að ég er alinn upp af hermanni. Menn geta forritað og afforritað mig eins og ekkert sé. Hlutirnir sem gerðust í Los Angeles eru þurrkaðir úr kerfinu og löngu farnir úr minninu mínu. Það er búið að sturta þeim í klósettið. Ef þið viljið synda í skólpinu og leita að einhverju þar, þá bara gjörið svo vel," sagði O´Neal. Leikurinn er í beinni útsendingu á Sýn og hefst útsendingin kl. 01.00.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×