Sport

Spennuþrungið í Stykkishólmi

Snæfell tók á móti Keflavík í öðrum leik lokaúrslitanna í Intersportdeildinni í körfuknattleik. Keflavík vann fyrsta leikinn og því lykilatriði fyrir Snæfellinga að fara með sigur af hólmi. Það hafðist eftir mikla baráttu og lokamínútur leiksins voru æsispennandi. Lokatölur urðu 97-93.  Snæfell byrjaði betur, leitaði meira inn í teiginn en í fyrsta leiknum og ef til tvídekkunar kom rataði boltinn til bakvarða Snæfells sem nýttu færin vel. Pálmi Freyr Sigurgeirsson skoraði 9 af fyrstu 17 stigum Snæfells sem náði mest 10 stiga forystu í fyrsta fjórðung. Gestirnir áttu erfitt uppdráttar gagnvart varnarleik Snæfells til að byrja með en voru þó aldrei langt undan. Snæfellingar misstu einbeitinguna um stundarsakir, Keflavík hjó í muninn og staðan eftir fyrsta leikhluta var 27-24. Það tók Keflavík innan við mínútu að ná forystunni í öðrum fjórðungi. Elentínus Margeirsson kom inn á hjá Keflvíkingum, spilaði sterka vörn og barði sína menn áfram. Þá var Gunnar Einarsson drjúgur og skoraði nokkrar góðar körfur. Leikurinn hélst nokkuð jafn á þessum tíma og staðan í leikhléi var 44-42 Snæfelli í vil. Snæfell hóf seinni hálfleikinn með 9-2 áhlaupi og jók forystuna í 7 stig. Töluverður hiti færðist í leikinn um miðjan þriðja fjórðung og voru bæði lið föst fyrir í vörninni. Nick Bradford átti margar laglegar hreyfingar þar sem hann sneri á vörn Snæfells, gríðarlega fjölhæfur leikmaður þar á ferð sem lætur sér ekki nægja að gleðja áhorfendur með þristum, troðslum og sendingum heldur samkjaftar allan leikinn, bæði við áhorfendur og leikmenn. Keflavík náði mest 8 stiga forystu í þriðja fjórðung. Staðan eftir þriðja, 68-73. Lokamínútur leiksins voru æsispennandi. Mike Ames kom Snæfelli einu stigi yfir, 92-91, þegar ein mínúta og 20 sekúndur voru til leiksloka. Gunnar Einarsson kom Keflavík yfir úr hraðaupphlaupi. Þegar hálf mínúta var eftir skoraði Sigurður Þorvaldsson þriggja stiga körfu og breytti stöðunni í 95-93. Magnúsi Gunnarssyni voru mislagðar hendur þegar Keflvíkingar gerðu tilraun til að jafna leikinn og Sverrir Þór Sverrisson braut á Ames þegar 16 sekúndur voru eftir. Lokatölur urðu 97-93. „Þetta var hörkubaráttuleikur og þeir unnu. Gott hjá þeim. Við vorum óheppnir í lokin og þetta hefði getað dottið okkar megin. Við vorum ekki nógu skynsamir á síðustu sekúndum en svona er þetta bara," sagði Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflavíkur.  „Þetta var baráttuleikur út í gegn og mér fannst menn vera mjög einbeittir þó þetta hafi ekki allt rúllað fyrir okkur. Þetta var hörkuleikur í hörkueinvígi og við spiluðum vel í kvöld. Við vorum afslappaðri í þessum leik og við ætlum að halda því áfram."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×