Sport

Howard ekki meira með Rockets

Lið Houston Rockets í NBA deildinni í körfubolta hefur orðið fyrir miklu áfalli, því framherji liðsins Juwan Howard, verður líklega ekki meira með liðinu á tímabilinu. Howard hefur verið frá leik um hríð vegna hnémeiðsla sem hann hlaut fyrir skömmu, en þau voru ekki það alvarleg að búist var við því að hann yrði klár í slaginn í úrslitakeppninni sem hefst 23. þessa mánaðar. Nú hafa læknar hinsvegar komist að því að Howard er með vírussýkingu í hjartanu og þó að tekist hafi að komast fyrir sýkinguna, hefur leikmanninum verið bannað að leika meira með liðinu á þessu tímabili, því hann má ekki hreyfa sig neitt í langan tíma eftir aðgerðina, því sýking sem þessi getur verið lífshættuleg ef ekki er varlega farið. Þetta er liði Houston mikið áfall, því Howard er lykilmaður í liðinu og var að skora um 10 stig og taka 6 fráköst að meðaltali í leik og er mjög reyndur leikmaður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×