Sport

NBA í nótt

Nokkrir leikir voru á dagskrá í NBA í nótt og spennan eykst jafnt og þétt fyrir úrslitakeppnina sem hefst síðar í mánuðinum. Fá óvænt úrslit litu dagsins ljós og þau lið sem eru að berjast um efstu sætin í úrslitakeppninni, unnu öll leiki sína. Spútniklið Chicago Bulls stefnir hraðbyri að heimavallarréttinum í fyrstu umferðinni, en í nótt náði liðið að leggja Orlando Magic á útivelli í framlengdum leik, 102-101. Kirk Hinrich skoraði 25 stig fyrir Bulls, en Steve Francis skoraði mest heimamanna eða 28 stig og átti auk þess 11 stoðsendingar. Philadelphia sigraði Charlotte 106-103 í hörkuleik, þar sem skorunarmaskínan Allen Iverson setti 48 stig og gaf 8 stoðsendingar, en Iverson hefur verið sjóðandi heitur í vetur og ætlar sér ekki að missa af úrslitakeppninni. Denver Nuggets eru heitasta liðið í NBA þessa dagana og í nótt vann liðið sinn fimmta leik í röð og hafa nú unnið 11 af síðustu 12. Denver lagði New Orleans 94-83 í nótt, þar sem Carmelo Anthony var stigahæstur með 18 stig og Marcus Camby skoraði 11 stig og hirti 13 fráköst í annars jöfnu liði Denver, sem er það lið sem enginn vill mæta í úrslitakeppninni í ár. Lið Minnesota heldur enn í vonina um að komast í úrslitakeppnina, en þær vonir eru meira bundnar við að önnur lið í vesturdeildinni misstígi sig, því stutt er eftir af tímabilinu. Liðið virðist þó vera að finna taktinn um þessar mundir og í nótt kjöldrógu þeir arfaslakt lið Utah Jazz, 111-86 á heimavelli sínum. Kevin Garnett skoraði 18 stig, hirti 16 fráköst og gaf 6 stoðsendingar í liði Minnesota. San Antonio Spurs sigruðu LA Clippers 91-82 og halda sæmilegum dampi þrátt fyrir fjarveru Tim Duncan, en liðið stefnir á efsta sætið í vesturdeildinni. Argentínski snillingurinn Manu Ginobili var atkvæðamestur í liði Spurs með 16 stig. Meistarar Detroit Pistons lögðu lið Washington 105-93, ekki síst fyrir stórleik Ben Wallace, sem fann fjölina sína sóknarlega aldrei þessu vant og skoraði 21 stig og hirti 18 fráköst.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×