Sport

Keflavík Íslandsmeistari

Keflvíkingar eru Íslandsmeistarar í körfuknattleik, þriðja árið í röð, eftir að þeir lögðu Snæfell, 98-88 í Stykkishólmi nú rétt í þessu og sigruðu 3-1 í einvígi liðanna. Sigur þeirra í dag var verðskuldaður, því liðið kom mjög einbeitt til leiks og leiddi nánast allan leikinn. Snæfellingar náðu sér aldrei á strik í leiknum í dag og lykilmenn þeirra voru einfaldlega ekki nógu vel stemmdir. Þrátt fyrir að liðið hafi náð nokkrum ágætum sprettum í leiknum, mættu þeir ofjörlum sínum á heimavelli sínum í dag. Magnús Gunnarsson hristi af sér slenið eftir dapran þriðja leik og fór mikinn í stigaskoruninni. Hann setti 29 stig í leiknum, þar af 6 þriggja stiga körfur, eftir að hafa verið stigalaus í síðasta leik. Magnús mætti til leiks með nýja klippingu sem virtist duga honum vel, en hann hafði rakað hanakamb á höfuð sitt og var því ansi skrautlegur að sjá. Magnús hitti vel úr vítaskotum sínum í úrslitakeppninni, en hann nýtti 28 af 29 vítum sínum í henni, þar af 14 af 14 í úrslitunum sjálfum. Snæfellingar verða að bíta í það súra epli að tapa fyrir Keflvíkingum í úrslitum annað árið í röð, en þrátt fyrir að suðurnesjaliðið hafi verið nokkuð brokkgengt í úrslitakeppninni í ár, náðu þeir ekki að nýta sér það og verða að sætta sig við silfrið öðru sinni. Nick Bradford var valinn besti leikmaður úrslitaeinvígisins, en hann var lykilmaður í einvíginu. Meðaltöl hans í úrslitarimmunni voru 23 stig, 12,3 fráköst og 6,5 stoðsendingar. Stig Keflavíkur: Magnús Þór Gunnarsson 29 (5 fráköst), Anthony Glover 23 (9 fráköst), Nick Bradford 22 (13 fráköst, 10 stoðsendingar, Jón Nordal Hafsteinsson 18, Sverrir Þór Sverrisson 6 (8 fráköst, 4 stoðsendingar). Stig Snæfells: Mike Ames 21, Hlynur Bæringsson 18 (9 fráköst, 5 stoðsendingar), Calvin Clemmons 12 (13 fráköst), Pálmi Freyr Sigurgeirsson 12 (6 stoðsendingar), Helgi Reynir Guðmundsson 9, Magni Hafsteinsson 8, Sigurður Þorvaldsson 8.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×