Sport

Friðrik Ingi til Grindavíkur

Friðrik Ingi Rúnarsson, sem tók sér eins árs hlé frá þjálfun á síðasta tímabili, mun stýra Grindavíkingum næstu þrjú árin. Hann skrifaði undir samninginn í gærkvöld og staðfesti Almar Sveinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur þetta í samtali við Fréttablaðið í gær. Friðrik Ingi, sem tekur við af Einari Einarssyni, er ekki ókunnur í herbúðum Grindvíkinga en hann hefur þjálfað liðið á tveimur þriggja ára tímabilum, fyrst frá 1994 til 1997 og síðan 2001 til 2004. Hann stýrði liðinu til Íslandsmeistaratitils árið 1996 og bikarmeistaratitils árið 1995. Almar sagði að Grindvíkingar væru afskaplega lukkulegir með að hafa landað Friðriki Inga sem væri einn af betri þjálfurum landsins. "Við ætlum okkur stóra hluti á næsta tímabili eftir lélegt tímabil í ár og vitum vel hvað Friðrik Ingi getur. Hann þekkir vel hjá okkur og við bindum miklar vonir við hann," sagði Almar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×