Viðskipti erlent

Olíuverð lækkaði lítillega

Mynd/AFP

Olíuverð lækkaði lítillega á helstu mörkuðum í dag eftir að hafa farið í sögulegt hámark í gær. Búist er við að upplýsingar bandarískra stjórnvalda, sem birtar verða í dag, sýni að olíubirgðir hafi aukist í Bandaríkjunum.

Helsta ástæða tíðra verðhækkana á olíu undanfarið er vaxandi spenna vegna kjarnorkuáætlunar Írana og tíðar árásir skæruliða á olíuvinnslustöðvar í Nígeríu sem hafa orðið til þess að olíuframleiðsla í Nígeríu hefur dregist mikið saman.

Olía, sem afhent verður í næsta mánuði, lækkaði um 41 sent í rafrænum viðskiptum á mörkuðum í New York í Bandaríkjunum í dag og endaði í 70,94 dollurum á tunnu. Verð á Norðursjávarolíu lækkaði aðeins um 9 sent í kauphöllinni í Lundúnum í Bretlandi og fór í 72,42 dollurum á tunnu. Búist er við að olíubirgðir í Bandaríkjunum hafi aukist um 2,3 milljónir tunna og nemi þær 346 milljón tunnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×