Viðskipti erlent

Japanir verða að fara varlega

Frá hlutabréfamarkaði í Japan.
Frá hlutabréfamarkaði í Japan. Mynd/AFP

Tíu ára kyrrstöðu efnahagslífsins í Japan er senn að ljúka en stjórnvöld verða að fara varlega í stýrivaxtahækkunum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um stöðu efnahagsmála í Japan og mælt með því að stjórnvöld bíði eftir frekari hækkun verðlags í landinu áður en þau hækka stýrivexti á nýjan leik.

Seðlabanki Japans hækkaði stýrivexti um 25 punkta í síðustu viku en þeir hafa staðið í núll prósentum síðastliðin sex ár.

Þá segir ennfremur í skýrslunni að skuldastaða hins opinbera sé slík að hún geti bitnað á hagvexti í landinu. Skuldir japanska ríkisins nema 775 trilljónum jena, sem er 150 prósent af árslandsframleiðslu Japans.

Mælir stofnunin með því að seðlabanki landsins bíði með frekari stýrivaxtahækkanir þar til eftir að verðbólga hafi hækkað um allt að 1 prósent. Vísitala neysluverð hækkaði um 0,6 prósent í maí.

Þrátt fyrir þetta var það niðurstaða OECD að efnahagslífið í Japan hafi batnað mikið og væri framundan eitt besta efnahagsskeið síðan um seinni heimsstyrjöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×