Viðskipti erlent

Atvinnuleysi minnkar í Japan

Maður í Japan.
Maður í Japan. Mynd/AFP

Atvinnuleysi dróst saman um 0,1 prósentustig í Japan í júlí. Það mælist nú 4,1 prósent og spá greiningaraðilar áframhaldandi efnahagsbata í landinu. Atvinnuleysi í Japan hefur minnkað jafnt og þétt 15 mánuði í röð.

Þrátt fyrir minna atvinnuleysi í Japan dró úr neyslu í sama mánuði en það er sjöundi mánuðurinn í röð sem það gerist. Ástæðan fyrir því er sögð vera svalt veður og rigningar.

Takuji Aida, aðalhagfræðingur Barclays Capital í Tókýó í Japan segir samdrátt í neyslu koma á óvart því laun hafi á sama tíma hækkað og því hefði mátt gera ráð fyrir aukinni neyslu á tímabilinu.

Seðlabanki Japans kastaði núllvaxtastefnu sinni fyrir róða í júlí og hækkaði stýrivexti bankans um 25 punkta með það fyrir augum að koma til móts við aukinn hagvöxt og minnkandi atvinnuleysi. Þetta var fyrsta stýrivaxtahækkun bankans í sex ár.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×