Viðskipti erlent

OPEC dregur úr olíuframleiðslu

Fulltrúar Sameinuðu arabísku furstadæmanna er þeim mættu á fundinn í Katar í gær.
Fulltrúar Sameinuðu arabísku furstadæmanna er þeim mættu á fundinn í Katar í gær. Mynd/AFP

Heimsmarkaðsverð á hráolíu hækkaði lítillega á helstu fjármálamörkuðum í dag í kjölfar þess að samtök olíuútflutningsríkja, OPEC, ákvað á fundi sínum í arabaríkinu Katar í dag að minnka olíuframleiðslu um 1,2 milljónir tunna á dag strax í næsta mánuði til að sporna gegn verðlækkunum á hráolíu. Þetta er 200.000 tunnum meira en búist var við.

Ákvörðun samtakanna tekur gildi 1. nóvember næstkomandi en fulltrúar nokkurra aðildarríkja samtakanna segja að svo geti farið að OPEC ákveði að draga enn frekar úr olíuframleiðslu á næstunni. Niðurskurðurinn mun þó ekki hafa afgerandi áhrif á birgðastöðu helstu hagkerfa, að sögn greiningaraðila.

Greiningaraðildar bjuggust almennt við að samtökin myndu minnka framleiðsluna um 1 milljón tunna á dag og því kom ákvörðunin þeim á óvart.

Verð á hráolíu, sem afhent verður í næsta mánuði, hækkaði um 33 sent á markaði í Bandaríkjunum og fór í 58,38 dali á tunnu. Þá hækkaði olíuverðið í framvirkum samningum sömuleiðis um 85 sent og fór í 58,50 dali á tunnu. Verð á Norðursjávarolíu, sem afhent verður á sama tíma, hækkaði um 29 sent á markaði í Bretlandi og fór í 61,16 dali á tunnu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×