Körfubolti

Garnett fer ekki frá Minnesota

Kevin Garnett verður líklega að sætta sig við enn eitt árið án þess að ná í úrslitakeppnina
Kevin Garnett verður líklega að sætta sig við enn eitt árið án þess að ná í úrslitakeppnina NordicPhotos/GettyImages

Líklega hefur enginn leikmaður í NBA deildinni verið meira í slúðrinu í sumar en framherjinn Kevin Garnett hjá Minnesota, en talið var nánast öruggt að honum yrði skipt frá félaginu í kring um nýliðavalið á dögunum. Þetta hefur nú verið slegið út af borðinu af eiganda Minnesota, sem segir að Garnett vilji vera áfram með liði Timberwolves.

"Garnett vildi helst vera áfram allan tímann. Ég ræddi við hann fyrir nokkrum vikum og sagði honum að láta sér ekki bregða þó mikið yrði slúðrað um hann, því við ætluðum í fyrsta skipti að láta á það reyna hvað við gætum fengið í staðinn ef við opnuðum á tilboð í hann," sagði eigandinn. "Svo fór þó að lokum að tilboðin vöktu ekki áhuga okkar og Garnett var heldur ekki svo heitur fyrir því að fara."

Garnett er 31 árs gamall og verður með lausa samninga eftir næsta tímabil. Hann hefur verið einn allra besti framherji deildarinnar síðustu ár og var valinn verðmætasti leikmaður deildarinnar fyrir nokkrum árum. Árangur Minnesota hefur hinsvegar ekki verið góður og hefur liðið ekki náð í úrslitakeppnina síðustu ár.

Garnett hafði verið mikiði orðaður við lið eins og Phoenix í sumar, en nú er útlit fyrir að ekkert verði af þeim skiptum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×