Viðskipti erlent

Carlsberg yfir væntingum

Kassi með bjór frá hinum danska Carlsberg.
Kassi með bjór frá hinum danska Carlsberg.

Hagnaður danska bjórframleiðandans Carlsberg nam rétt rúmum einum milljarði danskra króna, jafnvirði 11,8 milljörðum íslenskra króna, á öðrum fjórðungi ársins. Þrátt fyrir samdrátt upp á 18 prósent á milli ára er afkoman yfir væntingum markaðsaðila.

Að sögn bandaríska viðskiptatímaritsins Fortune var gert ráð fyrir því að hagnaðurinn myndi nema 888 milljónum danskra króna, 10,5 milljörðum íslenskra.

Hagnaður fyrirtækisins á sama tíma í fyrra nam hins vegar 1,27 milljörðum danskra króna, jafnvirði rúmra 15 milljarða íslenskra króna. Ástæðan fyrir betri afkomu var sala á hlut í bjórfyrirtækinu Hite Brewery í S-Kóreu. Gjörningurinn skilaði Carlsberg hálfum milljarði danskra króna í vasann.

Tekjur Carlsberg námu rúmum 12,6 milljörðum danskra króna samanborið við 11,44 milljarða á sama tíma í fyrra.

Aukin sala á miðinum gyllta undir merkjum Carlsberg og Tuborg, sem fyrirtækið framleiðir sömuleiðis, í Evrópu og Kína er helsta ástæðan fyrir betri afkomu nú en í fyrra.

Forsvarsmenn Carlsberg eru hæstánægðir með árangurinn og gera ráð fyrir að minnsta kosti 2,2 milljarða danskra króna hagnaði á árinu öllu í uppfærðri spá sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×