Viðskipti erlent

Smásala eykst í Bandaríkjunum umfram spár

Fjárfestar í Bandaríkjunum þykja einkar glaðir í dag eftir að upplýsingar um vöxt í smásöluverslun voru birtar.
Fjárfestar í Bandaríkjunum þykja einkar glaðir í dag eftir að upplýsingar um vöxt í smásöluverslun voru birtar. Mynd/AP

Smásala jókst um 0,6 prósent á milli mánaða í síðasta mánuði í Bandaríkjunum, samkvæmt upplýsingum bandaríska viðskiptaráðuneytisins. Þetta er tvisvar sinnum meira en greinendur höfðu reiknað með. Sala á bílum leiðir vöxtum og vegur á móti samdrætti í sölu á fatnaði.

Þá fylgir sala á eldsneyti fast á hæla bílasölunni.

Upplýsingar um vöxt smásöluverslunar er talin vísbending um að áhrif lausafjárkrísunnar í kjölfar samdráttar á bandrískum fasteignalánamarkaði í Bandaríkjunum undir lok sumar hafi ekki haft teljanleg áhrif á hagkerfið vestanhafs en óttast var að neytendur myndu halda að sér höndum.

Fjárfestar vestanhafs tóku fréttunum vel enda hefur gengið hlutabréfa hækkað nokkuð á bandarískum fjármálamörkuðum í dag.

Dow Jones-hlutabréfavísitalan hefur hækkað um 0,14 prósent frá því markaðir opnuðu fyrir rúmum hálftíma og Nasdaq-vísitalan hefur farið upp um 0,78 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×