Viðskipti erlent

Skipasmíðastöð Walesa seld

Menn að störfum í skipasmíðastöðinni í Gdansk í Póllandi.
Menn að störfum í skipasmíðastöðinni í Gdansk í Póllandi. Mynd/AFP

Samkeppnisyfirvöld í Póllandi hafa samþykkt að selja skipasmíðastöðina í borginni Gdansk til fyrirtækis í Úkraínu. Skipasmíðastöðin hefur fram til þessa verið í eigu pólska ríkisins og komst á spjöld sögunnar snemma á níunda áratug síðustu aldar en verkalýðsfélagið Samstaða var stofnuð innan hennar veggja með Lech Walesa í fararbroddi.

Stöðin hefur átt við viðvarandi rekstrarörðugleika að etja en þar vinna nú um þrjú þúsund manns. Þegar Walesa var þar við störf unnu þar hátt í 17.000 manns.

Pólska ríkið hefur styrkt mjög við rekstur skipasmíðastöðvarinnar, sem hefur verið í járnum. Stjórnendur stöðvarinnar þykja hafa látið hjá líða að hagræða í rekstrinum í því augnamiði að draga úr ríkisstyrkjunum og hefur það sætt gagnrýni Evrópusambandsins, sem þykir óhæfa að ríkið vinni með þessum hætti gegn samkeppni á frjálsum markaði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×