Körfubolti

Jón Arnór stigahæstur í sigri Rómverja

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jón Arnór í leik með Lottomatica Roma.
Jón Arnór í leik með Lottomatica Roma. Nordic Photos / AFP

Jón Arnór Stefánsson skoraði sautján stig á 29 mínútum í sigri Lottomatica Roma á Milano í ítölsku úrvalsdeildinni í dag, 80-74.

Jón Arnór skoraði flest stig sinna manna í leiknum og tók þar að auki fimm fráköst og gaf tvær stoðsendingar. Á þeim 29 mínútum sem hann lék skoraði Roma sextán stigum meira en andstæðingurinn.

Jón Arnór skoraði úr þremur af sex skotum utan af velli og þremur af sjö þriggja tilraunum sínum. Hann nýtti einnig bæði vítaköstin sín.

Roma var undir í hálfleik, 43-35, en náði að jafna snemma í fjórða leikhluta þegar Jón Arnór skoraði þriggja stiga körfu, 61-61. Eftir það létu Rómverjar ekki forystuna af hendi.

Þá skoraði Logi Gunnarsson tvö stig fyrir Gijon í spænsku C-deildinni er liðið vann fimm stiga sigur á Huesca Cosarsa, 99-94. Logi var í byrjunarliðinu en lék í ekki nema tólf mínútur.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×