Körfubolti

Andrúmsloftið í húsinu varð lélegt þegar það fór að ganga illa

Óskar Ófeigur Jónsson í Róm skrifar
Jón Arnór Stefánsson í leik með Lottomatica Roma.
Jón Arnór Stefánsson í leik með Lottomatica Roma. Nordic Photos / AFP

Jón Arnór Stefánsson og félagar í Lottomatica Roma eru komnir í slæma stöðu í baráttunni um ítalska meistaratitilinn. Liðið er komið 0-3 undir á móti Montepaschi Siena og þarf nú að vinna fjóra leiki í röð til þess að geta unnið titilinn.

Lottomatica byrjaði leikinn frábærlega, komst í 20-9 og var mest 20 stigum yfir, 34-14, um miðjan annan leikhluta. Síðan fór allt að ganga á afturfótunum og í seinni hálfleik gekk allt á afturfótunum. Siena nýtti sér það vel og vann átta stiga sigur, 72-80.

"Ef við eigum að eiga möguleika á því að vinna þetta lið þá þurfum við að spila eins og við gerðum í fyrsta fjórðungi. Við sýndum það þá og höfum gert það að við getum spilað við hvaða lið sem er. Við misstum dampinn og vorum ekki tilbúnir að taka á móti þeim þegar þeir komu til baka. Við vorum kannski ofurspenntir fyrir leikinn," sagði Jón Arnór eftir leik og fannst líka að áhorfendurnir hefðu mátt styðja betur við bakið á þeim þegar það fór að ganga illa.

"Þegar á móti blés þá leit út fyrir það að við réðum ekki við mótlætið. Við fengum ekki líka ekki nægilega hjálp frá áhorfendunum og andrúmsloftið varð lélegt í húsinu. Þegar illa gengur þá fáum við ekki rétta stuðninginn og kraftinn frá stuðningsmönnunum, það verður allt svo neikvætt og það hefur áhrif á okkur," sagði Jón Arnór sem hitti úr 3 af 6 skotum sínum og spilaði hörku vörn allan leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×