Viðskipti erlent

Saxo Bank spáir því að olíutunnan fari í 25 dollara

Danski bankinn Saxo Bank býst við óeirðum í Íran, að olíutunnan fari niður í 25 dollara og að Ítalir hætti í evrusamstarfinu í nýrri spá fyrir næsta ár. Bankinn birtir nú í annað sinn svonefnda ,,ótrúlega” spá sína fyrir komandi ár. Á viðskiptavefnum Business.dk er bent á að greinendur bankans hafi hitt naglann á höfuðið í fyrra þegar þeir spáðu gjaldþroti íslenskra banka. Samkvæmt spá Saxo Bank fyrir árið 2009 mun olíutunnan fara niður í 25 dollara. Það hafi aftur þau áhrif að írönsk stjórnvöld muni ekki getað keypt nauðsynjavörur og það leiði til uppreisnar þar í landi. Enn fremur spáir Saxo Bank því að Evrópusambandið muni koma nokkrum aðildarríkjum til aðstoðar vegna fjármálakreppunnar og þá muni Ítalía hætta í evrusamstarfinu. Þá muni verð á hrávöru lækka um 30 prósent og lönd í Asíu tengjast gjaldmiðli Kína. Haft er eftir David Karsböl, aðalhagfræðingi Saxo Bank, að næsta ár verði óútreiknanlegt líkt og það sem er að líða en það jákvæða við árið 2009 sé að þá verði ákveðinn vendipunktur og botninum verði náð í hinu alþjóðlega efnahagslífi.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×