Körfubolti

Litháen rétt marði Argentínu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Manu Ginobili reynir hér að komast framhjá Rimantas Kaukenas.
Manu Ginobili reynir hér að komast framhjá Rimantas Kaukenas. Nordic Photos / AFP

Litháen vann góðan sigur á Argentínu, 79-75, í körfubolta karla á fyrsta keppnisdegi greinarinnar á Ólympíuleikunum í Peking.

Litháen náði frumkvæðinu í leiknum strax í upphafi og lét það í raun aldrei af hendi. Munurinn á liðunum var aldrei meiri en tíu stig fyrr en í fjórða leikhluta en Litháen hafði fjögurra stiga forystu í hálfleik, 34-30.

Allt útlit var fyrir að Litháen myndi ná að sigla fram úr strax í upphafi fjórða leikhlutans en þeir argentínsku neituðu að játa sig sigraða og jöfnuðu metin með því að skora ellefu stig í röð undir lok leiksins.

Staðan var því jöfn þegar ein og hálf mínúta var til leiksloka en Litháar náðu að skora síðustu fjögur stig leiksins og vinna, 79-75. Sigurkörfuna skoraði Linas Kleiza er hann setti niður þrist þegar tvær sekúndur voru eftir. Áður höfðu leikmenn beggja liða brennt af skotum síðustu mínútuna.

Kleiza var stigahæstur með þrettán stig en Robertas Jactokas kom næstur með tólf. Hjá Argentínu var Manu Ginobili stigahæstur með nítján stig, Marcelo Nocioni skoraði fimmtán og Francisco Delfino þrettán.

Þá unnu Spánverjar góðan sigur á Grikkjum, 81-66. Spánverjar eru ríkjandi heimsmeistarar og höfðu sex stiga forystu í hálfleik, 35-29. Í þriðja leikhluta náðu þeir að stinga Grikkina af en leikhlutann unnu Spánverjar með 27 stigum gegn sautján.

Rudy Fernandez var stigahæstur hjá Spáni með sextán stig en næstir komu Manuel Calderon með þrettán stig og Pau Gasol með ellefu.

Hjá Grikkjum var Vasileios Spanoulis stigahæstur með fimmtán stig og Dimitrios Diamantidis kom næstur með fjórtán.

Önnur úrslit í körfuboltanum í nótt voru eftir bókinni. Rússland vann Íran, 71-49, þar sem Andrey Kirilenko skoraði fimmtán stig. Þá vann Þýskaland skyldusigur á Angóla, 95-66, og skoraði Dirk Nowitzky 23 stig fyrir Þjóðverjana.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×