Handbolti

Jafntefli gegn Egyptum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Stefánsson að brjóta sér leið í gegnum egypsku vörnina.
Ólafur Stefánsson að brjóta sér leið í gegnum egypsku vörnina. Mynd/Vilhelm

Ísland má þakka fyrir að hafa náð einu stigi gegn Egyptum í lokaleik sínum í B-riðli handboltakeppni karla á Ólympíuleikunum í Peking. Lokatölur voru 32-32 en Snorri Steinn Guðjónsson tryggði jafnteflið með marki á lokasekúndum leiksins, rétt eins og gegn Dönum í síðasta leik.

Leiknum var lýst beint á Vísi og má lesa lýsinguna hér að neðan.

Varnarleikur íslenska liðsins varð því að falli í dag en baráttan í lokin skilaði því stiginu. Með smá heppni hefði Ísland getað stolið sigrinum en sem fyrr var einbeitingarleysi í vörninni liðinu dýrkeypt.

Guðjón Valur Sigurðsson átti stórleik og skoraði tíu mörk í leiknum en hann var besti maður íslenska liðsins í dag. Hreiðar Guðmundsson átti fínan leik og varði þrettán skot en lítið sem ekkert síðasta stundarfjórðung leiksins.

Leikurinn fór mjög rólega af stað en Egyptar voru fyrr til að koma sér á beinu brautina og voru með tveggja marka forskot eftir tíu mínútur. Ísland náði þá að komast yfir í stöðunni 8-7 en þá kom hræðilegur leikkafli og Egyptar leiddu með þremur mörkum í hálfleik, 17-14.

Egyptar voru í raun klaufar að komast ekki meira en fjórum mörkum yfir sem þeir gerðu nokkrum sinnum í leiknum og má meðal annars þakka Hreiðari markverði fyrir að sá munur hefði ekki orðið stærri.

Íslenska liðið fór ekki að sýna almennilegan varnarleik fyrr en um stundarfjórðungur var eftir. Þá skoraði Ísland fjögur mörk í röð og jafnaði metin í stöðunni 27-27. En aftur komust Egyptar tveimur mörkum yfir en þá náði Ísland að halda í við þá.

Staðan var svo loksins jöfn á nýjan leik þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir en alltaf náðu Egyptar að halda frumkvæðinu. Síðasta sóknin hófst svo þegar 40 sekúndur voru eftir sem lauk með því að Snorri Steinn Guðjónsson skoraði jöfnunarmarkið á lokasekúndum leiksins.

Þeir voru nokkrir í íslenska liðinu sem náðu sér alls ekki á strik, þá sérstaklega í vörninni. Ásgeir Örn Hallgrímsson fór afar illa með nokkur dauðafæri og tapaði auk þess nokkrum boltum. Alexander, Arnór, Snorri, Sverre og Ingimundur náðu sér einnig ekki á strik en sá fyrstnefndi skoraði þó nokkur mikilvæg mörk undir lok leiksins.

Auk Guðjóns átti Róbert Gunnarsson mjög fínan leik og Logi Geirsson átti ágæta innkomu í upphafi síðari hálfleiks.

Tölfræði leiksins:

Ísland - Egyptaland 32-32 (14-17)

Gangur leiksins: 0-1, 2-2, 3-2, 3-5, 6-6, 8-7, 8-11, 11-12, 13-15, (14-17), 15-17, 16-20, 19-21, 21-22, 23-27, 27-27, 27-29, 28-30, 30-30, 31-32, 32-32.

Mörk Íslands (skot):

Guðjón Valur Sigurðsson 10 (14)

Róbert Gunnarsson 6 (6)

Snorri Steinn Guðjónsson 4/1 (6/2)

Logi Geirsson 3 (4)

Alexander Petersson 3 (4)

Ólafur Stefánsson 2 (3)

Arnór Atlason 2 (5)

Sigfús Sigurðsson 1 (1)

Ásgeir Örn Hallgrímsson 1 (3)

Skotnýting: 32/48, 67%

Vítanýting: Skorað úr 1 af 2.

Varin skot:

Hreiðar Guðmundsson 13 (45/4, 29%, 60 mínútur)

Björgvin Páll Gústavsson (1/1)

Mörk úr hraðaupphlaupum: 9 (Guðjón Valur 6, Arnór 1, Snorri Steinn 1 og Róbert 1).

Fiskuð víti: Alexander 1 og Róbert 1.

Utan vallar: 8 mínútur.

Markahæstir hjá Egyptum:

Hussein Zaky 9/5 (12/5)

Mohamed Abd Elsalam 6 (8)

Moustafa Hussein 6 (9)

Skotnýting: 32/49, 65%

Vítanýting: Skorað úr 5 af 5.

Varin skot:

Walid Abdel Maksoud 14 (46/1, 30%, 60 mínútur).

Mörk úr hraðaupphlaupum: 3.

Utan vallar: 12 mínútur.

02.26 Ísland - Egyptaland 32-32

Síðasta sóknin er spennuþrungin og Snorri Steinn kom inn sem sjöundi maður í sóknina. Hann skoraði af línunni á lokasekúndum leiksins. Ísland má þakka kærlega fyrir stigið því frammistaða liðsins var ekki góð.

02.22 Ísland - Egyptaland 31-32

Ísland á kost á að komst yfir þegar það er rúm mínúta eftir en Ásgeir Örn stígur á línuna. Hann er búinn að tapa aðeins of mörgum boltum í þessum leik. Egyptar skora vegna hræðilegs varnarleiks íslenska liðsins. Um 40 sekúndur eftir og Ísland er með boltann.

02.19 Ísland - Egyptaland 31-31

Frábær sókn, Egyptar missa mann af velli og Guðjón Valur jafnar úr horninu. En Egyptar svara strax með marki, það gerir Guðjón Valur aftur.

02.17 Ísland - Egyptaland 29-30

Ísland heldur í við Egypta en þá fær Sigfús tveggja mínútna brottvísun. Ísland nær þó að vinna boltann og rúmar fjórar eftir.

02.15 Ísland - Egyptaland 27-29

Íslendingar hafa verið klaufar í síðustu sóknum og Egyptar ganga á lagið og skora tvö í röð. Rúmar sex mínútur eftir. Þetta verður erfitt.

02.10 Ísland - Egyptaland 27-27

Fjögur íslensk mörk í röð, þar af þrjú frá Guðjóni, og staðan er jöfn. Egyptar virðast hafa farið á taugum og loksins er íslenska liðið farið að sýna einhverja grimmd í vörninni. Egyptar hafa þó boltann.

02.07 Ísland - Egyptaland 24-27

Það komu þrjú egypsk mörk í röð og Íslendingar mega þakka klaufaskap þeirra að vera ekki fleiri mörkum undir. Varnarleikurinn hefur ekkert skánað.

01.59 Ísland - Egyptaland 23-25

Egyptar missa mann af velli og Ísland minnkar muninn í eitt mark. En þá fá þeir Alex og Sverre að fara sömu leið og Egyptar eru komnir í tvö mörk á ný. En Ásgeir Örn skorar þó svo að Ísland sé tveimur færri.

01.54 Ísland - Egyptaland 20-22

Leikurinn er mjög hraður en Íslendingar hafa þó náð að minnka muninn og þurfa að standa vaktina betur í vörninni til að eiga möguleika á að jafna metin. Logi hefur komið sterkur inn og skorað þrjú síðustu mörk Íslands.

01.47 Ísland - Egyptaland 15-19

Egyptar byrja með boltann í síðari hálfleik en missa boltann og Guðjón Valur skorar úr hraðaupphlaupi. En þá skora Egyptar tvö í röð og eru komnir fjórum mörkum yfir.

01.37 Ísland - Egyptaland 14-17 - hálfleikur

Guðjón Valur minnkar muninn í tvö úr hraðaupphlaupi en Egyptar fá víti í blálokin og skora örugglega úr því.

Þessi fyrri hálfleikur hefur verið hrein skelfing ef markvarslan er frá talin en hún hefur verið fín hjá Hreiðari. En sókn og vörn hafa gengið skelfilega illa og þá sérstaklega vörnin.

Þessi leikur er einfaldlega ekki í sama gæðaflokki og aðrir leikir íslenska liðsins á mótinu og ekkert sem segir að Íslendingar eigi ekki að geta snúið blaðinu við í síðari hálfleik.

Mörk Íslands (skot):

Róbert Gunnarsson 4 (4)

Guðjón Valur Sigurðsson 4 (6)

Ólafur Stefánsson 2 (3)

Arnór Atlason 2 (4)

Snorri Steinn Guðjónsson 2/1 (6/2)

Ásgeir Örn Hallgrímsson (1)

Varin skot:

Hreiðar Guðmundsson 8 (25/3, 32%, 30 mínútur)

Björgvin Páll Gústavsson 0 (1/1)

01.34 Ísland - Egyptaland 13-16

Það gengur allt á afturfótunum í þessum arfaslaka leik. Snorri missir boltann í sókninni og Egyptar geta komist fjórum mörkum yfir þegar mínúta er eftir af fyrri hálfleik.

01.28 Ísland - Egyptaland 13-15

Logi fékk brottvísun en þrátt fyrir það gat Ísland jafnað metin. Gerði það þó ekki og forysta Egypta enn tvö mörk. Geta aukið hana í þrjú enn á ný.

Íslenska vörnin hefur verið langt frá sínu besta í þessum leik en Hreiðar hefur þrátt fyrir það varið nokkur ágæt skot. Íslenska sóknin á einnig í vandræðum með egypsku vörnina og þá sérstaklega Abdel Maksoud sem hefur verið gríðarlega öflugur í egypska markinu og varið allt of mörg dauðafæri.

01.24 Ísland - Egyptaland 11-13

Egyptar misstu mann af velli og Ísland náði að minnka muninn í eitt mark eftir að hafa lent þremur mörkum undir.

01.19 Ísland - Egyptaland 8-10

Egyptar komast tveimur mörkum yfir þrátt fyrir að vera manni færri. Ólafur og Snorri hafa svo báðir látið verja frá sér og geta Egyptar komist þremur mörkum yfir.

01.17 Ísland - Egyptaland 8-9

Egyptar taka leikhlé en í síðustu sókn Íslands fiskaði Róbert víti og mann út af en Snorri Steinn skaut í slána. Egyptar komast svo strax yfir.

01.13 Ísland - Egyptaland 8-8

Egyptar misstu tvo menn af velli með skömmu millibili en náðu samt að skora tveimur færri. Ísland náði þó að endanum að komast yfir en Egyptar jöfnuðu í næstu sókn úr víti.

01.09 Ísland - Egyptaland 5-6

Egyptar komust tveimur mörkum yfir og Guðjón brenndi af dauðafæri. Egyptar gátu komist þremur yfir en misstu boltann. Ísland skoraði í kjölfarið og minnkaði muninn í eitt mark.

01.06 Ísland - Egyptaland 3-3

Íslendingar komust yfir en Egyptar hafa náð að halda í við íslenska liðið sem svo tapaði boltanum. Egyptar hafa því kost á að komast yfir á nýjan leik.

01.03 Ísland - Egyptaland 1-1

Leikurinn fer nokkuð rólega af stað en Egyptar komast yfir. Snorri Steinn jafnar úr víti sem Alex fiskaði.

01.00 Ísland - Egyptaland 0-0

Leikurinn er hafinn og er Ísland með boltann.

00.58

Það er afar athyglisverð staðan í A-riðli. Eins og búist var við eru Frakkland, Pólland, Króatía og Spánn búin að raða sér í efstu fjögur sæti riðilsins og það í þessari röð.

Hins vegar geta Pólverjar tekið efsta sætið af Frökkum með sigri í leik þessara liða á morgun. Spánn og Króatía mæta Brasilíu og Kína síðar í dag og eiga því sigurinn vísan.

Það er því langlíklegast að annað hvort verða Frakkar og Pólverjar bæði með átta stig og Pólland í efsta sæti á betri árangri í innbyrðisviðureign eða þá að Frakkar fara í fjórðungsúrslitin með fullt hús stig og Pólland, Króatía og Spánn verða öll jöfn með sex stig. Andstæðingar Íslands í fjórðungsúrslitum ráðast því ekki fyrr en að leik Póllands og Frakklands sem hefst klukkan 12.15.

00.55

Egyptar spila upp á stoltið í dag því þeir eiga engan möguleika á sæti í fjórðungsúrslitunum. Þeir hafa fengið eitt stig í riðlinum sem kom í fyrsta leiknum gegn Dönum. Egyptar ætla sér þó ekki að fara frá leikunum án þess að vinna einn leik og vilja því sjálfsagt gera allt sem í þeirra valdi stendur til að vinna í dag.

00.37

Velkomin til leiks hér á Vísi þar sem leik Íslands og Egyptalands verður lýst. Þetta er síðasti leikur liðanna í B-riðli en í dag fer fram lokaumferðin í báðum riðlum.

Ísland á möguleika á því að komast í efsta sæti riðilsins með sigri á Egyptum. Ísland heldur efsta sætinu ef Rússar vinna Suður-Kóreu í morgunsárið.

Rússar eiga enn möguleika á sæti í fjórðungsúrslitunum og munu því sjálfsagt leggja allt í sölurnar í þeim leik og treysta á hagstæð úrslit í leik Rússa og Dana sem fer fram eftir þann leik.


























































Fleiri fréttir

Sjá meira


×