Körfubolti

Ísland tapaði í Hollandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Páll Axel Vilbergsson var stigahæstur hjá íslenska liðinu.
Páll Axel Vilbergsson var stigahæstur hjá íslenska liðinu.

Íslenska körfuboltalandsliðið tapaði í dag fyrir Hollandi í B-deild Evrópumótsins í körfubolta, 84-68.

Hollendingar byrjuðu mun betur í leiknum og komust í tólf stiga forystu eftir fyrsta leikhlutann, 25-13. Ísland náði svo að svara fyrir sig í þeim öðru og minnka muninn í 37-32 í hálfleik. Ísland vann því annan leikhlutann með nítján stigum gegn tólf.

Bæði lið skoruðu 21 stig í þriðja leikhluta og því Ísland í góðum möguleika þegar lokaleikhlutinn hófst. En þá kom slæmur leikkafli hjá íslenska liðinu og það hollenska tryggði sér sigur með því að skora fimmtán stig í röð.

Francisco Elson, leikmaður Milwaukee Bucks, fór mikinn í leiknum og skoraði 28 stig og tók ellefu fráköst.

Páll Axel Vilbergsson skoraði tólf stig fyrir Ísland en þeir Helgi Magnússon, Hlynur Bæringsson, Logi Gunnarsson og Jón Arnór Stefánsson voru allir með níu stig.

Næsti leikur Íslands verður gegn Svartfjallalandi í Laugardalshöllinni á miðvikudaginn kemur klukkan 19.15.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×