Viðskipti erlent

Breskum ferðamönnum til Íslands fækkar um 9.000

Breskum ferðamönnum sem komu til Íslands síðasta sumar fækkaði um 9.000 miðað við árið á undan. Þetta er hluti af almennri þróun í Bretlandi en samkvæmt upplýsingum frá hagstofu landsins ákváðu milljón Bretar að sitja heima síðasta sumar í stað þess að ferðast erlendis í fríum sínum.

Í umfjöllun um málið á Timesonline kemur fram að ferðamannastraumurinn frá Bretlandi jókst á fyrrihluta ársins en síðan varð skarpur viðsnúningur á þeirri þróun í sumar þegar fjármálakreppan skall á með fullum þunga.

Þeir staðir sem mesta fækkunin varð á komu Breta voru Grikkland þar sem breskum ferðamönnum fækkaði um yfir 100.000 miðað við árið í fyrra. En Eystrasaltsríkin fundu einnig verulega fyrir þessu. Tildæmis fækkaði komum Breta til Litháen um nær helming, úr 55.000 í 30.000 og svipaða sögu er að segja frá Eistlandi þar sem breskum ferðamönnum fækkaði úr 41.000 í 29.000.

Hvað Ísland varðar komu 43.000 breskir ferðamenn til landsins á þessu ári en þeir voru 52.000 talsins í fyrra. Stór hluti af þessum fjölda kom í styttri eða helgarferðir.

Og á næsta ári er reiknað með enn meiri fækkun breskra ferðamanna á erlendri grundu. Nefnir Times sem dæmi að Tui, stærsta ferðaskrifstofa Bretlands hefur fækkað ferðum sínum um 28% fyrir þennan vetur og um 16% fyrir næsta sumar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×