Körfubolti

Þetta er körfubolti - ekki kalda stríðið

Becky Hammon er 31 árs gömul og er gjarnan kölluð "Big Shot Becky" vegna vasklegrar framgöngu sinnar þegar mikið er undir
Becky Hammon er 31 árs gömul og er gjarnan kölluð "Big Shot Becky" vegna vasklegrar framgöngu sinnar þegar mikið er undir NordcPhotos/GettyImages

Bandaríska körfuboltakonan Becky Hammon hefur valdið nokkru fjaðrafoki í heimalandi sínu eftir að hún ákvað að leika fyrir hönd Rússa á Ólympíuleikunum. Sjálf segir hún að þessi ákvörðun sé sú amerískasta sem hún hafi tekið á ævi sinni.

Hammon leikur með liði San Antonio Silver Stars í WNBA deildinni en hún leikur einnig með liði CSKA í Moskvu þar sem hún skrifaði undir fjögurra ára samning upp á 2 milljónir dollara í fyrra.

Hammon hefur aldrei hlotið náð fyrir augum landsliðsþjálfara Bandaríkjanna, þrátt fyrir að vera orðin einn besti leikmaður í WNBA deildinni. Hún varð önnur í kjörinu a verðmætasta leikmanni deildarinnar í fyrra og skoraði rúmlega 17 stig að meðaltali í leik.

"Það var erfið ákvörðun að spila fyrir hönd Rússa, en ég veit að ég er að gera það á réttum forsendum," sagði Hammon í samtali við Reuters, en hún hefur fengið rússneskt vegabréf.

"Ég veit alveg hvað mér finnst um landið mitt. Ég elska Ameríku og við erum hinn frjálsi heimur. En frelsi hefur aldrei verið ókeypis, frelsi kostar," sagði Hammon.

Anne Donovan, landsliðsþjálfari Bandaríkjanna í körfubolta er ekki sammála þessu.

"Ef þú spilar í landinu, ert uppalin í landinu og klæðist svo rússneska landsliðsbúningnum - geturðu ekki talist sérstakur föðurlandsvinur," sagði Donovan.

Hammon segir einfaldlega að bandaríska liðið hafi haft næg tækifæri til að velja sig í landsliðið - og byggir ákvörðun sína á því að hana hafi alltaf dreymt um að spila á Ólympíuleikum.

"Ég hef aldrei spilað landsleik áður og bandaríska liðið fékk nægan tíma til að gefa mér tækifæri," sagði Donovan, sem var ekki í upprunalegum 23 manna hópi bandaríska landsliðsins

"Þetta er körfubolti - þetta er ekki kalda stríðið. Fólk má ekki missa sig í þjóðernisrembingi og fyrir mér er það mikilvægara að fá tækifæri til að spila á ÓL en að hlusta á gagnrýnina sem því fylgir," sagði Hammon.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×