Körfubolti

Helena leikmaður vikunnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Helena Sverrisdóttir, leikmaður TCU í Bandaríkjunum.
Helena Sverrisdóttir, leikmaður TCU í Bandaríkjunum. Mynd/TCU/Keith Robinson
Helena Sverrisdóttir, leikmaður TCU-háskólans í Bandaríkjunum, var í fyrradag valin leikmaður vikunnar í deild sinni, Mountain West Conference.

Í síðustu viku vann TCU tvo leiki, ekki síst vegna góðrar frammistöðu Helenu en þetta er í fyrsta sinn sem hún fær þessa viðurkenningu.

Í fyrri leiknum, gegn BYU, náði hún sinni fyrstu tvöföldu tvennu í háskóladeildinni er hún skoraði fjórtán stig og tók ellefu fráköst.

TCU vann svo SDSU-háskólann í síðari viðureigninni þar sem Helena var stigahæsti leikmaður TCU með fimmtán stig.

Hún var með 14,5 stig að meðaltali í leikjunum tveimur, 55% skotnýtingu og 8,5 fráköst. Hún náði samtals sjö stoðsendingum og tapaði aðeins einum bolta.

Helena hefur þótt standa sig gríðarlega vel en það er óvenjulegt að ná svo langt á sínu fyrsta ári í háskólaboltanum.

TCU hefur nú unnið fjóra sigra í röð sem er lengsta sigurganga liðsins síðan 2002.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×