Körfubolti

Jón Arnór óskar eftir fullri höll í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór í leik með Lottomatica Roma.
Jón Arnór í leik með Lottomatica Roma. Nordic Photos / AFP
Jón Arnór Stefánsson er í viðtali á heimasíðu Lottomatica Roma fyrir þriðja leik liðsins gegn Air Avellino í kvöld. Jón Arnór og félagar eru á heimavelli og komast í lokaúrslitin um ítalska titilinn á móti Montepaschi Siena með sigri. Lottomatica-liðið hefur unnið tvo fyrstu leiki einvígisins, 68-63 á heimavelli og 85-78 á útivelli í síðasta leik.

"Við erum búnir að sýna mikinn karakter og núna vonumst við til að fá fulla höll," segir Jón Arnór við heimasíðu Lottomatica en Palalottomatica-höllin tekur 10.500 manns. Á heimasíðunni er fólki ráðlægt að kaupa miða í forsölu til að forðast langar raðir í kvöld.

"Við erum búnir að spila góða vörn en við vorum alltof linir í upphafi síðasta leiks," segir Jón Arnór en Lottomatica var átta stigum undir, 26-18, eftir fyrsta leikhlutann í síðasta leik. "Við komum sterkir til baka, fórum að spila grimmari og ákveðnari varnarleik og fengum í kjölfarið fullt af auðveldum körfum. Við vorum að spila við erfiðar aðstæður á erfiðum útivelli en sýndum mikinn karakter og núna vonast ég til þess að fólkið fjölmenni og hjálpi okkur til þess að komast í úrslitin," segir Jón Arnór í þessu spjalli á heimasíðunni.

Það má finna viðtalið við Jón Arnór hér.

Jón Arnór hefur reyndar verið ískaldur í sókninni í þessum tveimur leikjum og aðeins náð að skora samtals 5 stig á 34 mínútum en hann hefur meðal annars klikkað á 10 af 11 þriggja stiga skotum sínum. Jón Arnór á enn eftir að brjóta tíu stiga múrinn í úrslitakeppninni og það er vonandi að hann finni körfuna í þessum mikilvæga leik í kvöld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×