Viðskipti erlent

Forbes: Milljarðamæringar tapa 37.000 milljörðum

Forbes tímaritið hefur birt árlegan lista sinn yfir 400 ríkustu Bandaríkjamennina. Fram kemur að þessi hópur hefur tapað samtals 300 milljörðum dollara eða ríflega 37.000 milljörðum kr. á liðnu ári. Þetta er í fimmta sinn á síðustu 27 árum þar sem ríkidæmi þessa hóps skreppur saman á milli ára.

 

Heildarauður hópsins stendur nú í 1.570 milljörðum dollara en toppsætið á listanum vermir sem fyrr Bill Gates stofnandi Microsoft og eru auðæfi hans metin á 50 milljarða dollara eða 6.200 milljarða kr.

 

Í öðru sæti er Warren Buffett en hann hefur tapað mestum fjárhæðum á árinu af öllum sem eru á listanum. Auður hans er metinn á 40 milljarða dollara sem er 10 milljörðum dollara minna en hann átti fyrir ári síðan. Tapið skýrist að mestu af fallandi gengi hlutabréfa í Berkshire Hathaway fjárfestingarfélagi Buffett.

 

Sem fyrr eru eigendur verslunarkeðjunnar Wal-Mart allir á topp tíu listanum yfir ríkasta fólk Bandaríkjana. Í sætum númer 4 til 7 eru þau Christy, Jim C., Alice og S. Robson Walton en auðæfi þeirra hvert um sig eru á bilinu 19 til 21,5 milljarðar dollara.

 

Lawrence Ellison stofnandi Oracle er þriðji ríkasti Bandaríkjamaðurin og Michael Bloomberg er í áttunda sætinu. Bræðurnir Charles og David Koch eru svo í 9. og 10. sæti listans.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×