Viðskipti erlent

Þriðja hvert hótel í Danmörku í gjaldþrotshættu

Þriðja hvert hótel í Danmörku er nú í hættu á að verða gjaldþrota á næstu árum. Þetta kemur fram í greiningu hjá greiðslumatsfyrirtækinu Solidietet sem fyrirtækið vann fyrir blaðið Berlingske Tidende.

Greiningin er unnin upp úr bókhaldsgögnum frá 422 dönskum hótelum. Rekstur helmings þeirra skilaði tapi á síðasta ári og í ár hefur staðan farið vernandi. Ferðamannageirinn í Danmörku hefur orðið illa úti í fjármálakreppunni eins og raunar ferðamannageirinn í fjölda annarra Evrópulanda.

Af fyrrgreindum fjölda hótela segir Solidietet að staða 102 þeirra sé slík að ekki borgi sig að veita þeim aukin lán undir neinum kringumstæðum. Til viðbótar eru 54 sem geta ekki staðið undir lánum sínum án aukinna trygginga. Samtals eru því 37% af heildarfjöldanum á barmi gjaldþrots.

Claus Allerup forstjóri Solidietet segir að þegar fyrirtækið mæli ekki með frekari lánveitingum séu miklir möguleikar á því að viðkomandi hótel skipti um eigendur á næstu 12 mánuðum.

"Við erum með öðrum orðum að benda á mikla hættu á gjaldþroti," segir Allerup. "Og þegar við mælum með auknum tryggingum er ljóst að fjármagnsflæðið hjá viðkomandi stendur ekki undir núverandi rekstri og þar eru mörg hótel í hættu á gjaldþroti."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×