Viðskipti erlent

Millibankavextir undir 0,5% í fyrsta sinn

Vextir sem bankar greiða þegar þeir lána hver öðrum fjármagn, betur þekktir sem LIBOR-vextir (London Interbank Offering Rate), fóru niður fyrir 0,5% í gær ef miðað er við þriggja mánaða LIBOR vexti í Bandaríkjadölum, en þetta ku vera í fyrsta skipti sem það gerist.

Hagfræðideild Landsbankans fjallar um málið í Hagsjá sinni. Þar segir að þetta gefi vísbendingar um að aðgerðir bandaríska seðlabankans til að binda enda á tveggja ára vandræðaástand á lánsfjármörkuðum sé að skila árangri.

Á mánudaginn lækkuðu áðurnefndir vextir úr 0,502% niður í 0,496%. Það sem af er ári hefur þessi tegund LIBOR vaxta lækkað um 0,93 prósentustig og 4,3 prósentustig frá því þeir náðu hámarki, í hita lánsfjárkreppunnar þann 10. október síðatliðinn en þá stóðu þeir í 4,82%. Á árunum 2006-2007 voru LIBOR vextirnir þó hærri og fóru hæst upp í 5,7% á árinu 2007.

LIBOR vextir mynda gjarnan grunn á vöxtum ýmissa skuldbindinga banka, fyrirtækja og einstaklinga, að viðbættu ákveðnu álagi. Til dæmis eru fasteignalán í erlendri mynt sem íslensku bankarnir veittu að miklum meirihluta tengd við LIBOR vexti og alls eru fjármálagerningar að virði 360.000 milljarða dollara (sem jafngildir 45.000 trilljónum króna á gengi dagsins) um allan heiminn tengdir við LIBOR vexti. Þetta kemur fram í frétt Bloomberg fréttaveitunnar.

Þegar millibankavextir til þriggja mánaða á dollurum, evrum, japönsku jeni og svissneskum franka eru skoðaðir sést að frá byrjun júlí í fyrra hafa vextir í dollurum og evrum og frönkum lækkað um ríflega 80% og um rúmlega helming í jeni.

Sérfræðingur sem Bloomberg ræddi við telur að sú kerfisbundna áhætta sem skapaðist við fall Lehman Brothers síðasta haust sé jafnvel horfin, en er ekki jafn viss í sinni sök að markaðir séu búnir að jafna sig. Þá telur hann að vextir muni haldast lágir í fyrirsjáanlegri framtíð.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×