Viðskipti erlent

Danske Bank: Kreppunni er lokið í Danmörku

Hagfræðideild Danske Bank telur að kreppunni sé lokið í Danmörku. Deildin býst við miklum hagvexti í alþjóðlega hagkerfinu næstu sex til níu mánuði. Í Danmörku gerir deildin ráð fyrir töluverðum hagvexti á næstu ársfjórðungum.

 

Samhliða þessari spá telja hagfræðingar bankans nokkra hættu á stöðnum hagvaxtar í Danmörku um mitt næsta ár ef ekki tekst að koma einkaneyslu þjóðarinnar í gang.

 

Samkvæmt frétt um málið á business.dk benda hagfræðingar Danske Bank á að stöðugleiki sé þegar að komast á fasteignamarkaðinn í Danmörku sem og annarsstaðar í heiminum. Þá er gert ráð fyrir að atvinnuleysi meðal Dana hafi nú náð hámarki og muni fara minnkandi á næstu ársfjórðungum.

 

Danske Bank býst við því að hagvöxtur innan evrusvæðisins verði 2,2% á næsta ári og er þetta 0,2 prósentustigum hærra en fyrri spár bankans gerðu ráð fyrir. Þetta er mun meiri vöxtur en bæði OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) hafa reiknað með.

 

Í Bandaríkjunum gerir Danske Bank ráð fyrir hagvexti upp á 3,2% sem er hækkun um 0,5 prósentustig frá fyrri spá. Þetta er einnig töluvert hærra en OECD (0,9%) og AGS (0.8%) gera ráð fyrir.

 

Mestur verður þó hagvöxturinn í Kína að mati Danske Bank eða 9,5% á næsta ár sem er örlítið betra en OECD gerir ráð fyrir.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×