Viðskipti erlent

Lehman Brothers: Dagurinn þegar Wall Street hrundi

Friðrik Indriðason skrifar

Nú er að renna upp ársafmæli dagsins þegar Wall Street hrundi í kjölfar gjaldþrots fjárfestingabankans Lehman Brothers þann 15. september í fyrra. Gjaldþrotið var upphafið að verstu fjármálakreppu sem heimurinn hefur orðið fyrir síðustu 80 árin og raunar sér ekki enn fyrir endan á henni hjá fjölda þjóða.

 

Gjaldþrot Lehman Brothers var upphafið að hruni íslenska bankakerfsins stuttu síðar. Við gjaldþrotið missti Glitnir mikilvæga lánalínu og gat ekki útvegað sér fjármagn í staðinn enda fraus höktandi millibankamarkaðurinn í hel við tíðindin. Það olli því að bankinn komst í þrot og síðan Landsbankinn og Kaupþing stuttu síðar. Það var altalað á þessum tíma að ef einn af stóru bönkunum þremur á Íslandi færi í þrot myndu hinir fylgja óhjákvæmilega eftir.

 

Lehman Brothers átti að baki nær 160 ára sögu þegar bankinn féll. Aðdragandinn að falli hans hafði staðið megnið af árinu fram að september í fyrra. Lehman Brothers var einfaldlega einn af mörgum bönkum sem höfðu veitt lán langt umfram eigið fé og fjárhagsburði. Af þeim sökum gat stjórn bankans ekki lengur fullvissað lánadrottna sína um að hann gæti staðið við skuldbindingar sínar.

 

Margir hafa haldið því fram að svokölluð undirmálslán á bandaríska fasteignamarkaðinum hafi valdið falli Lehman og þeirri kreppu sem þá var komin í gang. Vissulega áttu þessi lán stóran hlut að máli þegar lántakendur gátu ekki greitt af þeim í stríðum straumum. En undirmálslánin voru aðeins hluti af vandamálinu.

 

Eins og Robert Peston viðskiptaritstjóri BBC bendir á í pistli sínum um Lehman var fall hans blanda af ófullnægjandi fjármagnsstöðu, of litlu lausafé og flóknum tengslum sem gerðu hann og aðra banka háða hvor öðrum. Aðrir alþjóðlegir bankar sem voru komnir í sömu stöðu og Lehman voru m.a. Royal Bank of Scotland, UBS, AIG, Citigroup, Merrill Lynch, HBOS og fleiri.

 

Sennilega hafði fall Lehman Brothers einna víðtækust áhrif á Íslandi af öllum löndum. Fyrir utan tap Glitnis á lánalínu sinni olli fallið að öllum líkindum því að Bretar settu hryðjuverkalög sín á Landsbankann og yfirtóku Singer & Friedlander banka Kaupþings. Bent hefur verið á að skömmu fyrir fall Lehman voru gífurlegar fjárhæðir fluttar frá dótturfélögum bankans í Bretlandi til Bandaríkjanna. Bretar hafi viljað koma í veg fyrir að sagan endurtæki sig hvað íslensku bankana varðar og því gripið til fyrrgreindra aðgerða.

 

Skömmu fyrir fall Lehman hafði stjórn hans leitað ásjár bandarískra stjórnvalda og beðið þau um að draga sig að landi. Þáverandi fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Hank Paulson hafnaði þeirri beiðni og hlaut lof margra fyrir. Skattgreiðendur ættu ekki að borga tap þessa banka sem grætt hafði óhemjufé næstu árin á undan.

 

Peston bendir hinsvegar á að þetta var ekki rétti tímapunturinn til að rassskella Lehman. Enda gerðu bandarísk stjórnvöld sér grein fyrir mistökum sínum aðeins nokkrum klukkutímum síðar. Í gang fór ein stærsta bankabjörgun sögunnar því margir aðrir bankar voru í sömu stöðu og Lehman. Skattpeningar upp á 15 trilljónir dollara, eða 15.000 milljarðar dollara hafa hingað til verið notaðir til að bjarga bankakerfinu í Bandaríkjunum og Evrópu.

 

Þessi stjarnfræðilega tala nemur um fjórðungi af landsframleiðslu heimsins í heild. Hún þýðir að hver jarðarbúi hafi að jafnaði greitt um 2.000 dollara, eða um 250.000 kr. til að bjarga bönkunum.

 

Afleiðingarnar af falli Lehman hafa m.a. verið miklar umræður um endurbætur á starfsháttum banka en raunverulegar aðgerðir í þá átt hafa flestar verið í skötulíki. Eins og Peston segir: „Við höfum enn ekki leyst hin alvarlegu vandamál í kringum veika innviði fjármálakerfisins og efnahagsgeirans. Þar til við gerum slíkt mun endurreisnin verða óljós, höktandi og veikburða."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×