Fótbolti

Messi: Argentína kemst á HM

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lionel Messi, lengst til vinstri, fagnar marki í leik með Argentínu.
Lionel Messi, lengst til vinstri, fagnar marki í leik með Argentínu. Nordic Photos / AFP

Lionel Messi, leikmaður Barcelona og argentínska landsliðsins, segir að hann sé þess fullviss að Argentína komist á HM í Suður-Afríku næsta sumar.

Argentína er sem stendur í fimmta sæti í undankeppni HM í Suður-Ameríku. Það sæti veitir ekki beinan þátttökurétt á HM heldur þarf liðið sem lendir í fimmta sæti að keppa við liðið sem verður í fjórða sæti í undankeppni HM í Norður- og Mið-Ameríku um sæti í sjálfri úrslitakeppninni.

Sem stendur er það lið Kostaríku sem er í fjórða sæti í þeirri undankeppni.

„Argentína mun komast áfram. Við þráum það allir og munum leggja okkur alla fram til þess að svo verði," sagði Messi í samtali við spænska fjölmiðla.

Hann skoraði tvívegis í 4-1 sigri Barcelona á Racing Santander fyrr í vikunni en hefur þótt ekki standa sig eins vel í landsleikjum og hann gerir í leikjum Barca.

„Ég ætla að reyna að bæta mína frammistöðu með landsliðinu því þetta er eiginlega tvennt ólíkt. En ég mun gera það hægt og rólega," sagði Messi.

Argentína á eftir að spila við Perú á heimavelli og Úrúgvæ á útivelli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×