Körfubolti

Tony Parker kláraði Þjóðverjana - 11 stig í á síðustu 3 mínútunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tony Parker var frábær í lokin.
Tony Parker var frábær í lokin. Mynd/AFP

Tony Parker, leikmaður San Antonio Spurs í NBA-deildinni, var aðalmaðurinn á bak við 70-65 sigur Frakka á Þjóðverjum í fyrsta leik liðanna á Evrópumótinu í körfubolta í Póllandi sem hófst í gær. Parker skoraði 11 af 19 stigum sínum á síðustu 2 mínútunum og 38 sekúndunum í leiknum.

„Það er alltaf erfitt að spila á móti Tony Parker og hann gekk frá okkur í lokaleikhlutanum. Við höfum mikið af ungum leikmönnum sem hafa ekki mikla reynslu. Vandamálið okkar í dag var varnarleikurinn er ég er samt stoltur af mínum strákum," sagði Dirk Bauermann, þjálfari Þjóðverja.

Þegar 4 mínútur voru eftir af leiknum var staðan 59-61 fyrir þýska liðið en þá kom að þætti Parker. Hann kom Frökkum yfir með þriggja stiga körfu og skoraði síðan tvær tveggja stiga körfur og úr fjórum vítum á lokakaflanum sem Frakkar unnu 11-4.

Parker var einnig með 6 fráköst og 4 stoðsendingar en Ronny Turiaf (Golden State Warriors) var líka atkvæðamikill með 15 stig og 14 fráköst.

„Fyrsti leikurinn er alltaf sérstakur og þetta var erfiður leikur því þýska liðið spilaði vel. Ég reyndi að taka af skarið í lokin og tók áhættuna í mörgum tilfellum. Við verðum að spila mun betur í næstu leikjum," sagði Parker eftir leikinn.

Annar NBA-leikmaður átti einnig góðan leik því Hedo Turkoglu skoraði 19 stig í nokkuð óvæntum 84-76 sigri Tyrkja á Litháum. Pólverjar unnu 90-78 sigur á Búlgörum í hinum leiknum í þeim riðli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×