Körfubolti

Serbar skelltu Spánverjum í fyrsta leik - héldu þeim í 57 stigum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það gekk ekkert upp hjá Pau Gasol í leiknum.
Það gekk ekkert upp hjá Pau Gasol í leiknum. Mynd/AFP

Serbía vann óvæntan 66-57 sigur á Spánverjum í fyrsta leik liðanna á Evrópumótinu í Póllandi í gær. Spánverjar voru fyrir mótið taldir vera með sigurstranglegasta liðið á sama tíma og Serbar mæta til leiks með ungt lið og engar NBA-stjörnur innanborðs.

Serbar unnu síðustu fimm mínútur fyrri hálfleiks 14-4 og voru 38-23 yfir í hálfleik. Munurinn fór síðan aldrei niður fyrir átta stig í seinni hálfleik. Nenad Krstic (26 ára miðherji, Oklahoma City Thunder) var með 17 stig hjá Serbum og Novica Velickovic (23 ára framherji, Real Madrid) skoraði 12 stig og tók 8 fráköst. Þá var Milenko Tepic (22 ára framherji, Panathinaikos) með 10 stig.

„Við áttum þennan sigur fyllilega skilinn og við unnum þennan leik á stórkostlegum varnarleik," sagði Duzan Ivkovic, þjálfari Serba eftir leikinn.

Pau Gasol hjá Los Angeles Lakers fann sig ekki hjá Spánverjunum og skoraði aðeins 9 stig. Gasol klikkaði meðal annars á 7 af 8 vítum sínum í leiknum. Juan Carlos Navarro var stigahæstur með 14 stig.

„Þeir spiluðu frábærlega og þá sérstaklega í vörninni. Sóknin okkar brást bæði vegna þess að þeir spiluðu góðu vörn en eins vegna þess að mínir menn voru að klikka á galopnum skotum," sagði Sergio Scariolo þjálfari Spánverja en spænska liðið hitti aðeins úr 2 af 19 þriggja stiga skotum sínum.

Slóvenía vann 72-59 sigur á Bretum í hinum leik riðilsins þar sem Erazem Lorbek, fyrrum félagi Jóns Arnórs Stefánssonar hjá Benetton Treviso, var stigahæstur með 19 stig.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×