Viðskipti erlent

Lánshæfismat Rússlands orðið svipað og Íslands

Lánshæfismat Rússlands er nú á svipuðum slóðum og Íslands, það er skammt frá svokölluðum „rusl-flokki." Þetta kemur hinsvegar ekki í veg fyrir gríðarlegan áhuga á ríkisskuldabréfaútboði upp á 18 milljarða dollara sem rússnesk stjórnvöld áforma á næsta ári.

Í frétt um málið á Bloomberg segir að þetta verði í fyrsta sinn síðan 1998 að Rússar fari í ríkisbréfaútboð eða frá því að 40 milljarða dollara skuldir gjaldfellu á ríkissjóð landsins það ár.

Áhuginn á útboðinu sýnir að mati sérfræðinga að lánshæfismatið er ekki í samræmi við skuldastöðu Rússlands og meti hana ekki rétt. „Undirstöður efnahagslífsins eru mun betri en lánshæfismatið," segir Steven Meehan sérfræðingur í rússneskum málefnum hjá UBS bankanum. „Skuldakaupendur og kaupendur ríkisbréfa telja að misræmi sé þarna á milli.

Sem stendur er lánshæfismat Rússlands hjá Moody´s Baa1 sem er þremur stigum frá rusl-flokki og matið hjá Fitch Rating og Standard & Poors er BBB sem er tveimur stigum frá rusl-flokki. Hinsvegar nema opinberar skuldir Rússlands nú 10.5% af landsframleiðslu sem er mun betra hlutfall en hjá Bretum og Bandaríkjamönnum.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×