Handbolti

Ragnar besti leikmaður frönsku úrvalsdeildarinnar í apríl

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ragnar Óskarsson í leik með íslenska landsliðinu.
Ragnar Óskarsson í leik með íslenska landsliðinu. Mynd/Stefán

Ragnar Óskarsson var í gær útnefndur besti leikmaður frönsku úrvalsdeildarinnar í handbolta. Hann leikur með Dunkerque.

Ragnar skoraði 27 mörk í þremur leikjum með Dunkerque í apríl og hlaut alls 49 prósent atkvæðanna í kjörinu. Næsti leikmaður fékk 32 prósent atkvæðanna.

Hann lét reyndar einnig mikið af sér kveða í fyrsta leik maímánaðar og skoraði níu mörk fyrir Dunkerque er liðið tapaði naumlega fyrir Tremblay á heimvelli, 21-20.

Liðið er sem stendur í fjórða sæti deildarinnar og er einnig komið í undanúrslit frönsku bikarkeppninnar.

Ragnar sleit krossbönd í hné fyrir rúmu ári síðan en hefur leikið vel síðan hann sneri til baka eftir meiðslin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×