Viðskipti erlent

FIH bankinn í milljarða klemmu vegna Sjælsö Gruppen

FIH bankinn og Amagerbanken í Danmörku eru í klemmu vegna sambankaláns sem þeir veittu Sjælsö Gruppen að upphæð 1,1 milljarð danskra kr. eða rúmlega 25 milljarða kr. Skilyrðin fyrir láninu eru ekki lengur til staðar en þau voru helst að eiginfjárhlutfall félagsins mætti ekki fara niður fyrir 40%. Það stendur nú í 35,3%.

Sjælsö Gruppen er stærsta fasteignafélag Danmerkur og hefur bágborin staða þess vakið mikla athygli danskra fjölmiða í morgun. Félagið starfar nú upp á náð og miskunn FIH og Amagerbankans að því er segir í frétt á business.dk en bankarnir tveir munu sýna Sjælsö Gruppen þolinmæði og eru tilbúnir að líta fram hjá brotinu á skilmálunum fram til 1. júní 2011.

Eins og fram kom í frétt hér á síðunni fyrr í morgun skilaði Sjælsö Gruppen afleitu uppgjöri fyrir fyrstu sex mánuði ársins. FIH, Amagerbankinn og nokkrir aðrir bankar og fjármálafyrirtæki hafa ákveðið að koma félaginu til aðstoðar með rúmlega 500 milljónum danskra kr. í formi hlutafjáraukningar og 100 milljónum danskr kr. til að bæta fjárhagsstöðu félagsins.

Sjælsö Gruppen telur sjálft að reksturinn verði mjög erfiður það sem eftir lifir ársins. Og business.dk nefnir í því sambandi að greining Nordea bankans taldi í júní s.l. að félagið þyrfti að afskrifa um 600 milljónir danskra kr. af eignaverðmæti sínu í ár ofan á þær 166 milljónir danskra kr. sem afskrifaðar voru á fyrri helming ársins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×