Körfubolti

Jón Arnór valinn bestur hjá Benetton af Gazzetta dello Sport

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson.
Jón Arnór Stefánsson. Mynd/Valli

Jón Arnór stóð sig mjög vel með Benetton Treviso í fyrsta leiknum á móti ítölsku meisturunum í Montepaschi Siena í undaúrslitum ítölsku úrvalsdeildarinnar í gær. Jón Arnór skoraði 12 stig í leiknum og fékk 7 villur á leikmenn Siena.

Stærsta íþróttablað Ítalíu, Gazzetta dello Sport, fjallar um leikinn í morgun og þar velur blaðið Jón Arnór besta leikmann Benetton í leiknum. Jón Arnór fær sjö í einkunn fyrir frammistöðu sína en næstur honum í Benetton-liðinu var Massimo Bulleri með 6,5.

„Aðalhugmyndasmiður sóknarleiksins í byrjun og sá eini í liðinu sem spilaði vörn sem á að sjást í úrslitakeppni," skrifaði blaðamaður Gazzetta dello Sport um okkar mann. Besti leikmaður hvors liðs er kallaður Il Migliore eða sá besti.

Það fékk bara einn leikmaður leiksins hærri einkunn en Jón Arnór en það var Bandaríkjamaðurinn Henry Domercant sem fékk átta í einkunn en hann hitti meðal annars úr öllum 7 þriggja stiga skotum sínum og skoraði 32 stig á 30 mínútum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×