Viðskipti erlent

Vilja kaupa Karen Millen og Oasis af Kaupþingi

Debenhams íhugar nú að kaupa Aurora ltd.
Debenhams íhugar nú að kaupa Aurora ltd.
Tískuvörurisinn Debenhams er nú sagður íhuga að fjárfesta í verslunarkeðjunum Karen Millen og Oasis sem nú eru í eigu Kaupþings en áður Baugs. Bloomberg segir frá þessu í kvöld en þetta er haft eftir innanbúðarmanni hjá Debenhams.

Áhuginn er sagður vera á Aurora Fashions Ltd. sem er einnig með merki eins og Coast og Warehouse á sínum snærum. Heimildarmaður Bloomberg vill ekki láta nafn síns getið þar sem um trúnaðarmál er að ræða.

„Þú getur fengið Aurora á kostakjörum nú, segjum 100 milljónir punda," segir Nick Bubb sérfræðingur hjá Pali International í London. „Þeir eru með mörg flott merki. Þetta gæti verið sniðugt."

Talsmaður Aurora segir hinsvegar að Kaupþing hafi litið á félagiði sem langtíma fjárfestingu og sé ekki á þeim buxunum að selja. Hann bætti því einnig við að allt væri á áætlun.

Starfsmenn Debenhams neituðu að tjá sig um þennan orðróm.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×