Körfubolti

Búnir að vinna öll tíu lið deildarinnar í einum rykk

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helgi Már Magnússon í leik með KR í fyrra.
Helgi Már Magnússon í leik með KR í fyrra. Mynd/Anton

Helgi Már Magnússon og félagar í Solna Vikings unnu sinn tíunda leik í röð í sænsku úrvalsdeildinni þegar liðið vann sannfærandi 22 stiga heimasigur á Plannja, 85-63. Solna er á toppnum með tveggja stiga forskot á Norrköping og sex stiga forskot á Jakob Örn Sigurðarson og félaga í Sundsvall sem unnu 83-70 útisigur á Jämtland.

Helgi Már Magnússon var með 8 stig, 5 fráköst og 1 stolinn bolta á þeim 22 mínútum sem hann spilaði en hann setti niður 3 af 5 skotum sínum í leiknum. Bandaríkjamaðurinn Andrew Mitchell var stigahæstur með 24 stig.

Jakob Örn Sigurðarson var með 16 stig, 6 fráköst og 3 stoðsendingar í sigri Sundsvall sem á leik inni á Solna. Jakob hitti úr 6 af 12 skotum sínum utan af velli.

Solna Vikings tapaði einmitt síðast á móti Plannja Basket á útivelli 20. október og hefndi því vel fyrir það tap í gær um leið og þeir lokuðu hringnum- eru búnir að vinna öll tíu lið deildarinnar í einum rykk.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×