Viðskipti erlent

Fátækum fjölgar í einu auðugasta landi heims

Noregur er óumdeilanlega eitt auðugasta land heimsins. Samt fer fátækum fjölgandi þar í landi.

Samkvæmt frétt um málið í Verdens Gang hefur fátækum börnum í Noregi fjölgað um að minnsta kosti 50.000 á undan förnum fimm árum og eru þau nú um 100.000 talsins.

Hér skal tekið fram að um börn er að ræða í fjölskyldum sem hafa tekjur undir tæpum 7 milljónum króna á ári, en sú upphæð er miðuð við hjón með tvö börn og fer eftir stöðlum Evrópusambandsins.

Verdens Gang ræðir við Tone Flotten talsmann Fafo stofnunarinnar sem rannsakar ýmis félagsleg mál í norsku samfélagi. Tone segir að aukinn fjöldi innflytjenda í Noregi skýri að mestu hve fátækum börnum í landinu fjölgar ört. Þetta eigi einkum við fjölskyldur þar sem fyrirvinnan á í erfiðleikum með að útvega sér vinnu.

Tone segir að nær helmingur fátækra barna í Noregi komi frá fjölskyldum sem glími við atvinnuleysi. Það jákvæða hinsvegar er að margar af þessum fátæku fjölskyldum eru snöggar við að koma sér úr þeirri stöðu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×