Körfubolti

Bandaríkamenn tvöfaldir heimsmeistarar í körfubolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sue Bird, fyrirliði bandaríska liðsins, lyftir HM-bikarnum.
Sue Bird, fyrirliði bandaríska liðsins, lyftir HM-bikarnum. Mynd/AP
Bandaríkjamenn endurheimtu heimsmeistaratitilinn í bæði karla- og kvennaflokki í körfuboltanum í ár því bandaríska kvennalandsliðið tryggði sér titilinn í Tékklandi í gær alveg eins og karlarnir gerðu í Tyrklandi á dögunum.

Bandaríska kvennalandsliðið vann 89-69 sigur á heimastelpum í Tékklandi sem voru dyggilegar studdar af troðfullri höll og skipti það engu þótt að leikurinn væri löngu tapaður.

Bandaríkin endaði aðeins í 3. sæti á síðasta HM árið 2006 sem þótti mikil vonbrigði þar á bæ en yfirburðir liðsins voru miklir á mótinu sem Bandaríkin var nú að vinna í áttunda sinn.

Diana Taurasi var stigahæst hjá bandaríska liðinu í leiknum með 16 stig en hún var sú eina í liðinu sem komst í úrvalslið mótsins. Tékkar áttu mikilvægasta leikmann mótsins í fyrirliða sínum Hönu Horakovu.

Diana Taurasi og Swin Cash komust í merkilegan hóp með þessum sigri en þær eru fimmta og sjötta konan sem vinna alla eftirsóttustu titlana. Það er verða háskólameistari, WNBA-meistari, Ólympíumeistari og heimsmeistari.

Hinar eru Sue Bird (fyrirliði bandaríska liðsins núna), Cynthia Cooper, Sheryl Swoopes og Kara Wolters. Sue Bird og Swin Cash unnu WNBA-meistaratitlinn aðeins nokkrum dögum áður en þær komu til móts við landsliðið í Tékklandi.

Spánn varð í 3. sæti eftir sigur á Hvíta-Rússlandi en fráfarandi heimsmeistarar Ástrala urðu að sætta sig við fimmta sætið eftir óvænt tap á móti Tékklandi í átta liða úrslitunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×