Fótbolti

Balotelli mátti þola kynþáttaníð frá eigin stuðningsmönnum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Balotelli skildi ekkert í þessari hegðun.
Balotelli skildi ekkert í þessari hegðun.

Ítalskir stuðningsmenn urðu sér til háborinnar skammar í gær er þeir voru með kynþáttaníð í garð leikmanns ítalska landsliðsins, Mario Balotelli.

Balotelli mátti þola að hlusta á áhorfendurna gera ítrekuð apahljóð á leiknum og landsliðsþjálfaranum, Cesare Prandelli, var algjörlega misboðið eftir leikinn.

"Ég er vonsvikinn og reiður. Þessi apahljóð eru alltaf til staðar og það þarf að gera eitthvað róttækt í málinu. Við erum bjargarlausir en stöndum allir með Balotelli," sagði Prandelli eftir leikinn.

Í hvert skipti sem Balotelli fékk boltann í gær var baulað í bland við apahljóðin.

Það voru einnig áhorfendur með borða á leiknum þar sem ákveðinn hópur sagðist hafna blönduðu ítölsku liði. Balotelli á rætur að rekja til Ghana og Cristian Ledesma er fæddur í Argentínu.

Hrópin fóru augljóslega í taugarnar á Balotelli en aldrei þessu vant tókst honum að halda ró sinni.

"Ég veit hreinlega ekki hvað ég á að segja. Ef ég þarf að þola þetta í hverjum leik þá tökum við ekki skref fram á við. Ég læt aðra um að dæma þessa hegðun en ég er bara ánægður með að vera í landsliðinu," sagði Balotelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×