Körfubolti

Logi með 21 stig í tapi fyrir Norrköping

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Logi Gunnarsson.
Logi Gunnarsson. Mynd/Heimasíða Solna
Logi Gunnarsson skoraði 21 stig þegar lið hans Solna Vikings tapaði 81-91 í framlenginu á móti sænsku meisturunum í Norrköping Dolphins í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld. Þetta var sjöundi leikurinn í vetur þar sem Logi brýtur tuttugu stiga múrinn í vetur en hann hitti úr 5 af 9 þriggja stiga skotum sínum í leiknum.

Logi skoraði fimm fyrstu stig Solna og kom liðinu í 3-0 og 5-4 en liðið skoraði síðan ekki stig síðustu 8 mínútur fyrsta leikhlutans og á meðan komst Norrkoping í 15-5. Norrköping var síðan 38-26 yfir í hálfleik.

Það var allt annað að sjá til Solna liðsins í upphafi seinni hálfleiks, liðið náði strax að minnka muninn og það munaði aðeins þrmeur stigum á liðunum fyrir lokaleikhlutann en Norrkoping var 57-56 yfir. Logi skoraði tvo þrista í leikhlutanum og minnkaði auk þess muninn í eitt stig á lokasekúndum leikhlutans.

Logi og félagar náðu ekki að fylgja eftir frábærum þriðja leikhluta og Norrkoping náði strax níu stiga forskoti. Solna-liðið gafst þó ekki upp og náði að jafna leikinn þegar mínúta var eftir. Logi fékk tækifæri til að tryggja Solna sigur en lokaskotið hans geigaði og því varð að framlengja.

Norrköping skoraði fyrstu körfu framlengingunnar en Logi svaraði með þriggja stiga körfu. Norrkoping var hinsvegar sterkara, náði fljótlega átta stiga forskoti og vann að lokum með tíu stigum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×