Viðskipti erlent

Strikið komið í hóp dýrustu verslunargatna heimsins

Strikið í Kaupmannahöfn er komið í hóp 25 dýrustu verslunargatna heimsins. Skipar Strikið þar 23. sætið en þessi þekkta verslunargata hefur ekki áður náð inn á þennan topp 25 lista. Strikið er þar með einnig dýrasta verslunargatan á Norðurlöndunum.

Það er fasteignafélagið Cushman & Wakefield sem gefur út árlega skýrslu um dýrstu verslunargötur heimsins. Á listanum má finna 259 götur í 59 löndum en þeim er skipað á listann eftir því hve mikið það kostar að leigja hvern fermetra af verslunarplássi við þær.

Það er 5th Avenue í New York sem skipar toppsætið á listanum yfir dýrustu verslunargöturnar. Þar kostar hver fermetri um 2,5 milljónir kr. á ári. Næst á eftir kemur svo Causeway Bay í Hong Kong en þar kostar fermeterinn rúmlega 2,2 milljónir kr.

Þessar tvær götur eru þær langdýrustu í heiminum. Í þriðja sæti kemur Ginza í Tókýó en þar er fermeterinn helmingi ódýrari en við Causeway Bay.

Samkvæmt Cushman & Wakefield kostar fermeterinn á Strikinu um 330 þúsund kr.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×