Körfubolti

Hlynur og Jakob höfðu betur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jakob Örn Sigurðarson.
Jakob Örn Sigurðarson. Mynd/Vilhelm

Sundsvall vann í kvöld sigur á Solna í Íslendingaslag í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta, 95-74.

Hlynur Bæringsson og Jakob Sigurðarson leika með Sundsvall en Logi Gunnarsson með Solna.

Solna byrjaði betur í leiknum í kvöld en Sundsvall komst yfir um miðjan annan leikhluta og lét forystuna aldrei af hendi eftir það.

Staðan í hálfleik var 41-38 en Sundsvall stakk svo endanlega af í fjórða leikhluta og vann sem fyrr segir öruggan sigur.

Hlynur og Jakob voru báðir í byrjunarliði Sundsvall í kvöld. Hlynur skoraði fimm stig, tók þrettán fráköst og gaf fjórar stoðsendingar á 30 mínútum. Jakob lék einnig í 30 mínútur og skoraði ellefu stig og gaf þrjár stoðsendingar.

Logi Gunnarsson skoraði níu stig og tók tvö fráköst á rúmum 23 mínútum en hann var í byrjunarliði Solna í kvöld.

Þá vann Uppsala nauman sigur á 08 Stockholm, 79-77. Helgi Már Magnússon átti góðan leik í liði Uppsala og skoraði sextán stig og tók sjö fráköst á tæpum 28 mínútum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×