Viðskipti erlent

Norrænir stórbankar eru þeir öruggustu í Evrópu

Norrænu stórbankarnir Danske Bank, Handelsbanken, DnB NOR og Nordea eru þeir öruggustu í Evrópu. Þeir komu mjög vel út úr nýlegu álagsprófi ESB og skuldatryggingaálag þeirra endurspeglar trausta stöðu þeirra.

Í frétt um málið á business.dk segir að þessir fjórir norrænu bankar séu í hópi þeirra fimm evrópsku banka sem eru með lægsta skuldatryggingaálag af bönkum í Evrópu. Sá fimmti er hinn trausti bresk/kínverski banki HSBC.

Skuldatryggingaálag á Danske Bank er nú í 67,7 punktum sem þýðir að það kostar 67.700 krónur á ári að tryggja 10 ára skuldabréf útgefið af bankanum til 10 ára fyrir greiðslufalli. Álag hinna bankana þriggja er á svipuðum slóðum en lægst hjá Handelsbanken eða 57,7 punktar.

Til samanburðar má geta þess að skuldatryggingaálag hjá 108 öðrum evrópskum bönkum er að meðaltali 209 punktar en þessar upplýsingar má finna á Bloomberg fréttaveitunni.

Hæsta skuldatryggingaálagið er hjá gríska bankanum Alpha Bank og írsku bönkunum Allied Irish Bank og Anglo Irish Bank en það liggur á bilinu 506 til 738 punktar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×