Fótbolti

Aquilani vill fá Glen Johnson til Juve

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Glen Johnson.
Glen Johnson. Mynd/AFP
Alberto Aquilani vill að enski landsliðsbakvörðurinn Glen Johnson komi til Juventus en þeir náðu greinilega vel saman þann tíma sem Aquilani spilaði með Liverpool-liðinu.

Það hefur verið óvissa um framtíð Johnson hjá enska félaginu eftir að hann gegnrýndi stjórann Roy Hodgson fyrir að spila leiðinlegan fótbolta og fékk síðan vel valin orð til baka. Johnson er sagður vilja fara frá Anfield.

„Hvaða leikmann Liverpool vildi ég fá til Juventus? Ég vil ekki móðga vini mína í Liverpool-liðinu en ef ég á að vera hreinskilinn þá tæki ég Glen Johnson," sagði Aquilani í viðtali við Gazzetta dello Sport.

Aquilani er á láni hjá Juventus frá Liverpool en ítalski miðjumaðurinn náði ekki að fóta sig í enska boltanum á síðasta tímabili. Hann hefur líka margoft sagt að hann vilji ekki fara til baka til Englands.

„Það var frábært tækifæri fyrir mig að koma til Juventus og ég vil alls ekki missa það," sagði Aquilani sem hefur skoraði 1 mark í 8 deildarleikjum með Juve á þessari leiktíð.

„Ég vona að ég geti sannfært ráðamenn hjá Juventus um að kaupa mig frá Liverpool. Sextán milljónir evra er mikill peningur en þeir geta vonandi samið um eitthvað minna en það," sagði Aquilani.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×