Körfubolti

Magnús fann körfuna aftur í dag - Axel með mjög góðan leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Magnús Þór Gunnarsson
Magnús Þór Gunnarsson Mynd/Anton
Magnús Þór Gunnarsson komst aftur í gang í 89-69 sigri Aabyhøj á Amager í dönsku úrvalsdeildinni í körfubolta í dag. Magnús var með 18 stig á 24 mínútum í leiknum en hann setti meðal annars niður 4 af 7 þriggja stiga skotum sínum.

Magnús lék mjög vel í fyrsta leik tímabilsins (17 stig) en hafði aðeins hitt út 3 af 17 skotum í síðustum tveimur leikjum liðsins sem báðir höfðu tapast. Aabyhøj er nú í 6. sæti deildarinnar.

Í dag var Magnús hinsvegar sjóðheitur en hann setti niður 6 af 10 skotum sínum auk þess að taka 5 fráköst, gefa 4 stoðsendingar og stela 4 boltum. Hann fékk 25 í framlag fyrir frammistöðu sína.

Axel Kárason átti einnig mjög góðan leik með Værløse sem tapaði 64-87 á útivelli á móti Bakken Bears. Axel skoraði 24 stig í leiknum en hann hitti úr 10 af 15 skotum sínum og tók einnig 6 fráköst. Guðni Valentínusson lék ekki með Bakken sökum meiðsla.

Værløse er á botni deildarinnar eftir að hafa tapað öllum fjórum leikjum sínum en Bakken Bears liðið er í 3. sæti. Sigurður Þór Einarsson og félagar í Horsens eru í 2. sætinu eftir að hafa tapað fysta leiknum á tímabilinu á móti Svendborg í gær. Sigurður náði ekki að skora á 10 mínútum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×